Efnaskipti og krabbamein – nýjar meðferðarleiðir?

Þegar frumur umbreytast í illkynja krabbameinsfrumur fylgja því verulegar breytingar í efnaskiptum. Er unnt að nýta þenna mun á krabbameinsfrumum og eðlilegum frumum til meðferðar?
Við höfum rannsakað tvö efni úr íslenskum fléttum, annað er úr hreindýrakrókum, úsnínsýra (ÚS), en hitt úr fjallagrösum, prótólichesterínsýra (PS). Fléttur eru ævafornar lífverur, myndaðar úr sambýli tveggja lífvera, og framleiða mörg virk efni.
Krabbameinsfrumur hafa súrara yfirborð en eðlilegar frumur. ÚS flytur sýru og hefur þannig áhrif á orkuskipti frumna og líklegt er að sýrustig ráði miklu um upptöku og virkni sumra krabbameinslyfja.
Krabbameinsfrumur hafa mun meiri þörf fyrir fituefnaskipti en eðlilegar frumur. PS virðist verka á fitur frumunnar þótt enn sé nokkur ráðgáta hvernig. Vísbendingar eru um að PS hafi áhrif á virkni lyfja sem notuð eru gegn sérlegu ágengu brjóstakrabbameini.
Efni á borð við ÚS og PS gætu nýst til samverkunar við hefðbundna krabbameinsmeðferð þannig að lyfin yrðu áhrifaríkari. Þá mætti hugsanlega nota minni skammta og draga þannig úr aukaverkunum sem eru oft alvarlegar og hafa veruleg áhrif á lífsgæði sjúklinga.
Á næstu tveimur árum (til ársins 2015) ætlum við okkur að hafa komist að því hvernig ÚS getur aukið virkni krabbameinslyfja og upplýst hvernig PS virkar. ÚS er til á markaði og notað í ýmsum tilgangi (t.d. í snyrtivörum). PS er unnt að framleiða með efnasmíð.

Helga Ögmundsdóttir, prófessor í ónæmisfræði við Rannsóknastofu í krabbameinsfræðum og Læknadeild HÍ.