Telómer-lengd í blóði hefur forspárgildi um brjóstakrabbameinsáhættu hjá BRCA2 arfberum

Nýlega kom út vísindagrein í tímaritinu Cancer, Epidemiology, Biomarkers and Prevention frá rannsóknahópi Jórunnar Erlu Eyfjörð prófessor emeritus við Læknadeild Háskóla Íslands sem ber heitið Telomere length is predictive of breast cancer risk in BRCA2 mutation carriersVerkefnið er hluti af doktorsverkefni Birnu Þorvaldsdóttur nemanda Jórunnar.

Kímlínustökkbreytingar í BRCA2  geni auka áhættu á brjóstakrabbameini og öðrum krabbameinum í minna mæli. Þó virðast arfberar ekki allir vera í sömu áhættu, en greiningaraldur og alvarleiki sjúkdóms eru mjög mismunandi á milli einstaklinga og fjölskyldna. Því er eftirsóknarvert að finna þætti sem geta spáð betur fyrir um áhættu og framvindu sjúkdómsins.

BRCA2 próteinið gegnir mikilvægu hlutverki í viðgerðum á tvíþátta brotum í DNA og við verndun stöðvaðra eftirmyndunarkvísla. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á hlutverk BRCA2 við viðhald og varðveislu litningaenda. Telómerar eru endurteknar basaraðir (TTAGGG) ásamt bundnum próteinum á litningaendum sem verja þá fyrir skaða og niðurbroti. Vegna eftirmyndunarörðugleika styttast telómer-raðir jafnt og þétt með aldri. Telómer-lengd hefur verið tengd við áhættu á ýmsum sjúkdómum og er algengt rannsóknarviðfangsefni. Niðurstöður fyrri rannsókna á telómer-lengd í arfberum BRCA2 stökkbreytinga hafa ekki verið samhljóða.

Í rannsókninni var telómer-lengd í blóði mæld með multiplex-monochrome qPCR aðferð hjá íslenskum konum sem eru arfberar BRCA2 999del5  stökkbreytingarinnar, sporadískum brjóstakrabbameinstilfellum og heilbrigðum viðmiðunarhópi. Styrkleikar rannsóknarinnar eru mjög vel skilgreint þýði, nákvæmar mæliaðferðir og löng eftirfylgni. Helstu niðurstöður voru þær að með því að skoða eingöngu sýni sem tekin voru fyrir greiningu brjóstakrabbameins komu í ljós marktæk tengsl á milli styttri telómer-lengdar og aukinnar brjóstakrabbameinsáhættu í hópi BRCA2 arfbera en ekki á meðal þeirra sem bera ekki stökkbreytinguna. Telómer-lengd í blóði hefur því forspárgildi fyrir brjóstakrabbameinsáhættu hjá BRCA2 arfberum.

Telomere Length Is Predictive of Breast Cancer Risk in BRCA2 Mutation Carriers