Ný vísindagrein í Molecular Oncology

Rannsókn á undirgerðum brjóstakrabbameina var nýlega birt í vísindatímaritinu Molecular Oncology. Ólafur Andri Stefánsson vann að rannsókninni sem nýdoktor á rannsóknarstofu Manel Esteller, Barcelona, Spáni.

Í rannsókninni var heildar-erfðamengis nálgun beitt til þess að greina sviperfðamerki af ákveðinni gerð sem kallast CpG metýlering. Aðferðin nær yfir 450 þúsund CpG set í erfðamenginu og greinir á milli þess hvort metýl hópur í 5´ stöðu á cytosín basa sé til staðar eða ekki á CpG tvenndum (þ.e. þar sem cytosin kemur á undan guanin í erfðamenginu).

Mikill munur er á CpG metýleringar mynstri yfir erfðamengið þegar borin eru saman eðlileg sýni úr brjóstavef og brjóstakrabbameinssýni úr sama einstaklingi. Í rannsókninni kemur fram að brjóstakrabbamein sýna kerfisbundnar breytingar á landslagi CpG metýleringar og voru tvær nýjar undirgerðir skilgeindar á þeim grundvelli. Þessar tvær nýju undirgerðir, þ.e. Epi-LumB og Epi-Basal, einkennast af hraðri framþróun og slæmum horfum fyrir sjúklinga.

Rannsóknin varpar nýju ljósi á líffræði brjóstakrabbameina og mun hugsanlega hafa vægi í tengslum við klínska þýðingu. Niðurstöðurnar gætu hjálpað til við að finna sjúklinga sem raunverulega þurfa á frumudrepandi lyfjameðferð (cytotoxic chemotherapy) að halda til viðbótar við skurðaðgerð. Vitað er að nokkuð stór hluti sjúklinga gengur í gegnum slíka lyfjameðferð án þess að það hafi árhrif á batahorfur. Lyfjameðferð getur haft mikil áhrif á líf sjúklinga sem bitnar ekki bara á líkamlegum og andlegum þáttum heldur einnig þeim sem snúa að fjárhagsstöðu sjúklinga. Með betri skilgreiningu á ágengum undirgerðum brjóstakrabbameina gæti rannsóknin haft áhrif til betrumbóta að því að meta þörfina á frumudrepandi lyfjameðferð í hverju tilfelli fyrir sig. Greinina má lesa í opnum aðgangi (skoða grein).

Jórunn Eyfjörð og Hólmfríður Hilmarsdóttir voru samstarfaðilar og eru meðhöfundar á greininni sem birtist í Molecular Oncology. Ólafur Andri Stefánsson er nú með stöðu sem nýdoktor á Rannsóknarstofu í Krabbameinsfræðum við Læknadeild Háskóla Íslands.

Sjá einnig heimasíðu Molecular Oncology.